battlestar galactica

Mig langar aðeins að sponsa þessa þætti með góðum ummælum.

Fyrir þá sem vita ekki þá eru Battlestar Galactica semi-cheesy sci-fi þættir síðan 1978, en núna er búið að endurgera þá með alveg ágætis árangri.

Ronald D. Moore vann það sér til frægðar í minni bók að vera með í framleiðslunni á Star Trek:Deep Space Nine og þótti hann einn af hæfileikaríkri rithöfundum á bakvið þá seríu. Nálgunin hans við “endur”-gerðina á þessum þáttum er mjög skemmtileg.

Þrátt fyrir að vera vísindaskáldskapur með róbottum og geimskipum, einhverntíman í óskilgreindri framtíð, þá eru þættirnir filmaðir og leikstýrt með mun meira raunsæi en áður hefur þekkst í þessum bransa. Það er eins og að Moore hafi kveikt á vinsældum Band of Brothers og 24 og ákveðið að það sem þyrfti í vísindaskáldskap af þessu tagi væri stór skammtur af raunsæi.

Persónur, dýnamík á milli persóna & samtöl og meiðsli persóna eru öll raunverulegri. Ef eitthvað kemur fyrir persónur, bæði andlegt eða líkamlegt, þá hverfur það ekki eftir nokkur atriði heldur þarf persónan að kljást við það í næstu þáttum. Einnig er sagan sjálf að fléttast yfir nokkra þætti og er nokkuð heildstæð mynd á þeirri fléttu. Myndatakan í þáttunum er meira “handheld” eins og maður er vanur úr heimildarmyndum og jafnvel í geimatriðunum þá er myndavélin ekki svífandi fram og til baka á fleygiferð, heldur lítur út eins og að það sé bara gaur með cameru að reyna að taka myndir af þessum stóru skipum.

Frá fyrsta þætti og nánast út seríuna, er jöfn og þétt spenna. Ég var að minnsta kosti langoftast frekar spenntur fyrir því hvernig myndi nú fara fyrir “okkar fólki” o.s.frv. sem er góð tilbreyting frá þáttum þar sem að nokkrir þættir í seríu eru virkilega spennandi en restin er uppfyllingarefni.

Eini alvöru gallinn sem ég tók eftir við Battlestar var svolítið ofnotkun á “áhorfs"aukningar trikkum eins og ofgnótt af káfi og kossum, sérstaklega í fyrstu 2-3 þáttunum.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er ekki mikið af almennilegum sci-fi þáttum í gangi, en þetta var nokkuð ánægjulegt. Vonandi fær Moore meira að gera.