Ný uppsetning á vefnum

Ég tók mig til um helgina og færði þennan vef í nýjan búning. Það ætti nú að vera aðgengilegra og auðveldara að komast í eldra efni.

Fyrir tæpum tveim árum síðan, fannst mér fjöldi linkablogga (færsla með einum link) vera farinn að skemma dagbókarflæðið. Til að leysa það, stofnaði ég aðgang hjá del.icio.us sem hafa staðið sig vel í að halda utan um bókamerkin. Svo þegar ég fór að bókamerkja videóklippur í miklu magni, stofnaði ég annan aðgang fyrir þær.

Svo, fyrir rúmlega ári, byrjaði ég að setja mín eigin video á bloggið. Um svipað leyti tók ég forsíðuna í meikover og sameinaði efnið þar (ljósmyndir, video, blogg, linka og fleira). Uppsetningin var einföld, en það vantaði þó heildarsvip og að lesandinn sæi strax eitthvað efni. Eða eins og félagi minn sagði, “þetta brýtur svolítið í bága við það sem maður er vanur”. Með þetta að leiðarljósi tók ég mig til og reyndi að finna meðalveginn.

Ég er nokkuð sáttur við niðurstöðuna. Mikill fókus á nýjustu færsluna, færslusafnið fær sína eigin síðu, stutt í linkasafnið á forsíðu og fleiri dúllur. Svo er ekki verra að hafa mynd af smettinu á sér einhvers staðar á forsíðunni, svona til að minna á að hér er að finna óritstýrða rödd einstaklings.