Augnablik

white vinyl - mynd eftir maxw

Þegar ég var ungur fór ég reglulega eftir skóla, labbaði niður Laugaveginn og leit í ýmsar verslanir. Ein af þeim var Plötubúðin (nánar um Plötubúðina) við Laugaveg 20. Mér fannst lítið um plöturnar í búðinni en ég heimsótti búðina reglulega til að lesa yfir lista af plötum sem voru ný-útkomnar erlendis. Í mínum heimi gat ég aðeins nálgast þennan lista í þessari verslun. Ég man reyndar ekki eftir því að hafa velt fyrir mér öðrum valkostum. Listinn var í þessari verslun og það var gott.

Markmiðið var reyndar ekki að komast í og lesa listann, heldur að finna eitthvað sem leit vel út. Ef ég fann eitthvað sem vakti áhuga minn, þ.e. ef ég sá eitthvað sem ég hélt að gæti verið þess virði að eiga, þá lagði ég inn pöntun. Gott ef ekki að ég hafi orðið að borga smá með pöntuninni, svona til að sýna að mér væri alvara.

Þá hófst biðin. Reynslan reyndi að kenna mér að búast við 2-4 vikna biðtíma, en óskhyggjan var sterkari og ég hringdi oft viku síðar og spurði um plöturnar. Stundum var ég heppinn. Þegar sendingin var komin þá fór ég með næsta strætisvagni Kópavogs sem átti leið niðrí miðbæ Reykjavíkur, sótti plöturnar, fór heim, inn í herbergi og hlustaði á. Stundum voru þær góðar.

Magnað hvað sumir hlutir gjörbreytast á stuttum tíma.