Hvað er í gangi?


Ég rakst á athyglisvert tól á vafri um netið fyrir nokkru síðan. Tólið heitir Wattson og mælir orkunotkun heimilisins í rauntíma. Svona eins og hraðamælir nema að Wattson mælir vött.
Við höfum það gott á Íslandi þegar kemur að orkumálum. Þrátt fyrir verðhækkanir þá er orkan ódýr og því engir gríðarlegir hagsmunir í því að kryfja notkun sína. Því er auðvelt að taka rafmagni sem sjálfsögðum hlut. Við á Íslandi upplifum ekki oft að það sé rafmagnslaust en í hvert skipti rifjar maður upp hversu mikið af lífsgæðum okkar eru háð rafmagni. Ég hafði því áhuga á að kynnast þessu betur og ákvað því að prófa Wattson. Mestu skipti þó að ég er nörd sem finnst gaman að græjum sem sýna tölur.
Wattson plus transmitter 2 - mynd eftir lwicks_2000
Wattson powered up and going! - mynd eftir lwicks_2000
Við fyrstu sýn lítur Wattson út eins og vekjaraklukka. Lítið box með tölum í rauðum lit nema í staðinn fyrir klukku sýnir hann vattatölu. Orkunotkunin er sýnd í rauntíma, þannig að ef ég kveiki á eða slekk á rafmagnstæki, þá sýnir Wattson hækkun eða lækkun í orkunotkun á innan við sekúndu. Bakhliðin (eða botninn) á Wattson sýnir svo rauðan, bláan eða fjólubláan lit sem segir til um hvort orkunotkun mín sé yfir (rauður), undir (blár) eða á pari (fjólublár) við meðalnotkun mína.
Á þessu augnabliki er ég að nota 1079 vött sem er yfir meðalnotkun minni, enda er kveikt á öllum ljósum á heimilinu og er tónlistin í loftinu.
Að hafa þennan mæli jafn sýnilegan og klukku heima fyrir leiðir svo til þess að maður verður meðvitaðri um hversu mikla orku hvert rafmagnstæki þarf. Til dæmis þarf videótölva heimilisins rúm 45 vött og miðað við verðskrá Orkuveitu Reykjavíkur (11,96 kr. á kílóvattstund) þá kostar það 4.714 krónur að hafa hana í gangi stanslaust í eitt ár.
Með Wattson fylgir svo forritið Holmes sem tengist Wattson og gerir manni kleift að skoða orkunotkun aftur í tímann (þ.e. frá því að mælingar hófust). Nánari upplýsingar eru á vef DIYKyoto diykyoto.com.
Á þessu augnabliki er ég að nota 373 vött…