Átak eða tilraun?
Make different in your life - mynd eftir Stef Ming Það er vinsæl viska að heilsuátök séu ekki mikils virði þegar allt kemur til alls. Þessi viska segir að árangurinn sem náist í átakinu sé fljótur að hverfa því einstaklingurinn “hætti” heilbrigðu lifnaðarháttunum. Nánar tiltekið, það er stefnt að einhverju markmiði yfir stutt tímabil og til þess að ná markmiðinu er lifnaðarháttum breytt, stundum róttækt. Þegar markmiðinu er náð eru gömlu lifnaðarhættirnir teknir upp og árangurinn sem náðist fljótur að renna viðkomandi úr greipum því að ástand líkamans er afurð lifnaðarháttana.
Það er ekkert að þessari visku í sjálfu sér. Hún er að benda okkur á að að úrræði til lengri tíma fá síður séns þegar skyndilausnir eru annars vegar.
Mig langar að koma með þriðja sjónarhornið á þetta. Kannski þurfa svona átök ekki að vera skyndilausnir sem leggja ekkert til heildarmyndarinnar. Kannski geta átök verið tilraunir sem við lærum af og getum þannig tekið það gagnlegasta úr hverju átaki áfram. Kannski gerum við þetta ómeðvitað eftir hvert skipti.
Síðustu 2 árin hefur þyngd mín aukist meira en ég hefði viljað. Í byrjun árs fór ég í tveggja mánaða átak þar sem ég tók upp slow carb matarræðið, en í því er áherslan á flókin (hægmeltandi) kolvetni á kostnað einfaldra kolvetna. Að loknu átakinu hafði ég náð markmiðinu en ég held að ég hafi lært ýmislegt á ferlinu. Tímasetning æfinga, samsetning próteina, kolvetna og fitu í matnum og svo framvegis.
Að lokum langar mig að benda á Edison sem er vefsamfélag fólks sem gerir alls kyns tilraunir í tengslum við sjálft sig og deilir þeim og niðurstöðunum með öðrum.