Best í heimi
Christmas Spiral - mynd eftir Don Gato Ég er Íslendingur. Ég fæddist árið 1977 í Reykjavík, en Reykjavík var þá bara lítil og hallærisleg borg með innbyggða 4-8 mánaða seinkun á tísku og menningu frá útlandinu. Bjórinn var bannaður, yfirvaraskegg voru ekki fyndin og kitch og stjórnmálamenn voru gæddir hlýju og föðurlegu yfirlæti sem var löngu byrjað að fara úr tísku.
Þegar ég var 7 ára komst ég að því að hugmyndir mínar um okkur Íslendinga voru rangar. Ég hélt að við værum fámenn þjóð sjómanna út í hafsauga sem umheiminum væri að mestu leyti sama um. Hins vegar kom í ljós að við vorum sterkust í heimi. Reiknigeta mín var ekki mikil á þessum tíma en þegar ég frétti að Íslendingurinn Jón Páll hefði unnið í keppninni Sterkasti Maður Heims, þá virtist eftirfarandi augljóst: Ef fámenn þjóð vinnur aðrar mun fjölmennari þjóðir í styrkleikakeppni þá hlýtur fámenna þjóðin að vera mun sterkari en sú fjölmenna. Formúlan undirliggjandi þessari hundalógík er: Fólksfjöldi x Meðalstyrkur = Velgegni í styrkleikakeppni.
Ári síðar vinnur Hólmfríður Karlsdóttir í keppninni Fallegasta Kona Heims eins og hún var markaðssett í hugarfylgsnum 8 ára drengs. Ómeðvitað hugsaði ég “nei heyrðu, ég hef séð svona reikningsdæmi áður” og útkoman var augljós. Ekki nóg með að við séum mun sterkari en aðrar þjóðir heldur erum við mun fallegri líka. Það var næstum því til óþurftar þegar Linda Pétursdóttir sigraði í útlitskeppninni 4 árum síðar.
Árið 1986, þegar okkur var svo boðið að taka þátt í Söngvakeppni sjónvarpsstöðvanna eða Besta Tónlist Heims eins og hún hét í kollinum á mér, virtist heimurinn vera að segja að á Íslandi byggi slíkt yfirburðafólk að það væri hreinlega orðið eftirsóknarvert að tapa fyrir okkur.
Þegar ópusinn Gleðibankinn sigraði ekki, leiddi það til “hruns hugarfars” og varð nauðsynleg leiðrétting á hugmyndum ungs drengs um sig, þjóðina og heiminn.